Fundargerð aðalfundar 2021.

Fundargerð aðalfundar 2021

Aðalfundur  Félags sumarhúsa eigenda við Langá haldinn 11. júní 2021 í  Langárbyrgi, veiðihúsinu við Langá.

Formaður setti fund kl: 11.00  og bauð fundarmenn velkomna og gerði að tillögu sinni að Harald B. Alfreðsson yrði fundarstjóri og Samúel Guðmundsson ritari. Báðar tillögur samþykktar.

Til fundarins eru 29 aðilar mættir sem skráðir eru fyrir húsum eða lóðum og var löglega boðað til fundarins, með tölvupósti, á Facebook,  auglýsingaskilti rétt hjá ruslagámum og einnig á heimasíðu félagsins www.jard.is

Fundarstjóri kannaði lögmæti fundarins þ.e.a.s. hvort að minnsta kosti 1/3 félagsmanna sé mættur, en mættir eru a.m.k. 29 aðilar sem skráðir eru fyrir húsum og lóðum. Fanney Einarsdóttir er með nokkurn fjölda umboða og telst því fundurinn löglegur

Fundarstjóri bar upp til samþykkis síðustu fundargerð aðalfundar 2019 og skýrslu formanns fyrir árið 2020 en vegna Covid var ekki ráðlegt að halda aðalfund á síðasta ári. Fundargerð síðasta aðalfundar samþykkt sem og skýrsla formanns fyrir árið 2020.

1. Skýrsla stjórnar.

Stjórnin hefur haldið einn formlegan stjórnarfundi á starfsárinu eða frá síðasta aðalfundi, auk þess hafa stjórnarmenn hist og rætt málin óformlega auk þess sem mál félagsins hafa verið rædd símleiðis.

Eftirfarandi mál hafa verið rædd:

 • Fundargerðir. Fundargerð síðasta aðalfundar og yfirlit formanns má sjá á “www. jard.is”     
 • Vatnsveita. Málefni vatnsveitu rædd. Síðastliðinn vetur varð vatnslaust í fjölda húsa á Tannalækjahól eins og gerðist árið 2019. Ástæða þess er talin vera sú að lögn aðalleiðslunnar liggur trúlega nokkuð ofarlega á hluta og s.l. vetur var óvenju snjólítill og því lítil einangrun fyrir miklu frosti sem hér var um tíma s.l. vetur. Stjórnin tók ákvörðun um að fergja leiðsluna með jarðvegi í von um að koma í veg fyrir vatnsleysi út af frosti og mun sú framkvæmd verða gerð fyrir næsta vetur. Frá síðasta aðalfundi hefur einn nýr notanda verið tengdur vatnsveitunni.

Vegna reglubundins viðhalds á vatnsveitunni hefur Orkuveitan upplýst okkur um að útskolun verður framkvæmd a ca. 4 mánaða fresti í tvær vikur í senn. Fyrri vikuna ættum við ekki að finna fyrir truflunum en seinni vikuna er viðbúið að vatnsþrýstingur falli verulega þann tíma dags sem skolunin á sér stað. Ástæða skolunarinnar mun vera mikið úrfelli í borholum sem orsakast af tíðum jarðskjálftum undanfarið.

Að gefnu tilefni og eins og margsinnis hefur komið á fyrri aðalfundum félagsins er framkvæmdum engan vegin lokið á svæðinu enda yfir 20 lóðir sem ekki hafa verið tengdar við dreifikerfið. Það er því ákvörðun stjórnar að ekki sé tímabært að endurgreiða úr sjóði Vatnsveitunnar til félagsmanna fyrr en þeim framkvæmdum verður lokið.

Á síðasta aðalfundi var ákveðið að tillögu stjórnar að leggja af innheimtu hvatagjalds á vatnsveitu, afturvirk til 2014 með verðbótum.

 • Árgjöld. Umræður um árgjöld og lagalegar heimildir til innheimtu árgjalda. Tillaga stjórnar að halda óbreyttum árgjöldum eða 6000kr.
 • Framkvæmdir. Á síðasta aðalfundi var það tillaga stjórnar að kanna uppsetningu eftirlitsmyndavéla. Okkur bárust tilboð sem voru algerlega óásættanleg að mati stjórnar. Nú eru hins vegar vonir á að úr rætist og fyrst í stað verði sett upp ein myndavél þar sem keyrt er inn á svæðið, á móts við ruslagámana. Nánari upplýsingar þar um verða birtar á heimasíðu félagsins.
 • NYTJASKÓGUR. Stjórn félagsins barst til eyrna frá eigendum Jarðlangsstaða ehf., í síðasta mánuði að til stæði að rækta nytjaskóg í landi Jarðalangsstaða. Við nánari eftir grennslan kom í ljós að leyfi fyrir framkvæmdum hafði verið gefið út í júlí 2020 af Borgarbyggð. Þetta olli okkur nokkurri furðu í stjórn félagsins að ekki hefði verið haft samband við félagið þar sem á svæðinu eru einvörðungu frístundahús og lóðir í eigu einstaklinga auk Jarðalangsstaða ehf. Á stjórnarfundi var ákveðið að spyrjast fyrir hjá Borgarbyggð hverju sætti að þessar framkvæmdir hefðu ekki verið kynntar félagi sumarhúsa eigenda við Langá og var bréfi þar að lútandi sent á skipulagsfulltrúa Borgarbyggðar. Erindi félagsins var tekið fyrir í Skiplags- og byggingarnefnd Borgarbyggðar á 25. Fundi hennar þann 07. Júní 2021, sjá 19. lið fundargerðar. Í skriflegu svari skipulagsfulltrúa Borgarbyggðar sem barst félaginu 10. júní s.l. segir:

Félag sumarbústaðaeigenda við Langá 10. júní 2021 2006131/DG Efni: Framkvæmdaleyfi vegna skógræktar innan frístundabyggðar í landi Jarðlangsstaða Erindi frá Borgarbyggð varðandi framkvæmdaleyfi til skógræktar innan frístundbyggðar í landi Jarðlangsstaða. Á sveitarstjórnarfundi þann 9. júní 2021 var tekið fyrir framkvæmdaleyfi vegna nytjaskógræktar á jörðinni Jarðlangsstöðum í Borgarbyggð. Meðfylgjandi var ræktunaráætlun Skógræktarinnar á jörðinni þar sem tilgreind eru 29 svæði og var framkvæmdaleyfi veitt að undanskildum svæðum 11, 13, 16, 20, 21, 25 og 29 þar sem málsmeðferð skal vera í samræmi við 8. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Í bókun sveitarfélagsins segir: „Grenndarkynna skal framkvæmdir á svæðum 11, 13, 16, 20, 21 og 25 fyrir hagsmunaaðilum við Litluhóla 4 og 5, við Helluskóg 1, 3, 5, 16 og 17 og við Mið-árás 12.“ „Ræktunaráætlun á svæði 29 skal kynnt fyrir öllum eigendum sumarhúsahverfisins í samvinnu við félag sumarhúsaeigenda við Langá í landi Jarðlangsstaða.“ Meðfylgjandi er uppdráttur þar sem drög Skógræktarinnar að hönnun á svæði 29 er sýnd. Á svæðinu er áætluð fjölnytjaskógrækt, tegundablöndun trjágróðurs með áherslu á útivist. Gert er ráð fyrir göngustígum/gönguleiðum að og innan svæðis, auk samkomurjóðurs þar sem möguleiki er á minni samkomum og að koma fyrir t.d. bekkjum og leiktækjum. Áætlunin felur í sér skógrækt á opnu svæði innan frístundabyggðarinnar, merkt (Opið svæði) á gildandi deiliskipulagi svæðisins. Markmið framkvæmdarinnar er hlutdeild í loftslagsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Skógræktarinnar. Markmið hönnunar er að mynda skjól og möguleika á útivist í frístundabyggðinni við Langá í landi Jarðlangsstaða. Óskað er eftir athugasemdum vegna grenndarkynningar á framkvæmdaleyfi og samstarfi við viðtakandi um kynningu á framkvæmdaleyfi fyrir aðilum félagsins. Taka ber fram að hver fasteignareigandi innan sumarhúsasvæðisins fær jafnframt send grenndarkynningargögn. Virðingarfyllst, ________________________________ Skipulagsfulltrúi Borgarbyggðar

 • Facebook síða Félags Sumarhúsaeigenda við Langá. Við viljum enn og aftur vekja athygli félagsmanna á því að við höfum ‚Fésbókarsíðu‘ um málefni félagsins. Allir félagsmenn geta beðið um vinabeiðni inn á Fésbókinni og verður þeim þá bætt við á síðuna.
 • Heimasíða félagsins. Við hvetjum félagsmenn til að koma með tillögur að nytsamlegu efni á heimasíðunni en þar er nú m.a. að finna upplýsingar sem snerta félagsmenn, t.d. fundargerð síðasta ársfundarins, opnunartíma gámastöðvarinnar í Borgarnesi og svo framvegis. Einnig er þar að finna veðurupplýsingar í rauntíma, fengnar frá Borgarnesi. 
 • Gámar. Að margefnu tilefni eru notendur sorpgámanna minntir á að aðeins má losa þar almennt heimilissorp. Allur annar úrgangur á að fara með á sorpstöðina við Sólbakka í Borgarnesi. Vísað er á heimasíðuna varðandi opnunartíma. Félagið hefur komið fyrir skilti við gámana þar sem nánari upplýsingar er að finna.
 • Trjáúrgangur. Jarðlangstaðabændur halda áfram að taka við trjáúrgangi, og er safnstaður ca. 100 metra á vinstri hönd áður en komið er að innkeyrslunni að bænum, þegar hann er í notkun. Þá er einnig tekið við trjáúrgangi á gámastöðinni í  Borgarnesi.
 • Hreinsun rotþróa. Næta tæming á rotþróm verður 2023 en þær voru síðast hreinsaðar 2020. Rotþrær eru hreinsaðar á þriggja ára fresti samkvæmt upplýsingum fengnum frá Borgarbyggð.
 • Viðhald vega. Það hefur vart farið fram hjá nokkrum manni að vegurinn okkar #536 hefur undanfarna mánuði varla verið ökufær venjulegum ökutækjum, miklu heldur ófæru tröllum. Haft var samband við Valgeir verkstjóra Vegagerðarinnar í Borgarnesi. Nú hefur vegagerðin klárað viðgerð á veginum og hann heflaður og rykbundinn.
 • Varnir við gróðureldum. Við hvetjum alla félagsmenn enn og aftur um að þeir komi sér upp vatnsslöngu sem nær a.m.k. hringinn í kringum hús sín og einnig má benda mönnum á að fáanlegar eru sérstakar „Nornaklöppur“ sem notaðar eru m.a. hjá slökkviliðum við að slá á og slökkva í sinueldum. Við viljum enn og aftur benda félagsmömmum á vefsíðuna  grodureldar.is og er, eins og nefnið bendir til, um Gróðurelda, Forvarnir og Viðbrögð. Við hvetjum alla félaga til að skoða hana nánar. Einnig hvetjum við félagsmenn til að halda vöku sinni útaf því sem betur má fara varðandi varnir gegn gróðureldum. Allur opinn eldur heyrir sögunni til!
 • Heimabanki og netföng.
  Sendar hafa verið út kröfur í heimabanka fyrir félagsgjöldum.
 • Hnitun á lóðum. Stjórnin bendir félagsmönnum á að skynsamlegt getur verið að láta Hnita allar lóðir, en aðeins nýjustu 25 lóðir í deiliskipulagi Jarðlangsstaða voru hnitaðar áður en þær fóru í sölu. Upp hafa komið ágreiningsmál útaf stærð og legu lóða og viðbúið er að slíkum málum eigi bara eftir að fjölga þegar Frístundahús fara í sölu á svæðinu. Til nánari glöggvunar má benda á að samliggjandi lóðaeigendur þurfa allir að vera samtaka um hnitun því allir þurfa að staðfesta hnitin áður en hægt er að færa þau til bókar hjá Sýslumanni. Þeir aðilar sem m.a. gefa sig út fyrir að framkvæma Hnitamælingar eru t.d. Sjónhagur, Efla, VSO, Hnit og Verkís. Formaður bauð skipulagsfulltrúa Borgarbyggðar að upplýsa félagsmenn um þessi mál og hvernig þessu hefur verið og væri háttað í öðrum frístundakjörnum í Borgarbyggð, en því var kurteislega hafnað.
 • Ljósleiðari. Félagið LJÓSBORG, sem er er félag í eigu Borgarbyggðar og sér um ljósleiðaravæðingu í Borgarbyggð hyggst[LA1]  hefja framkvæmdir á okkar svæði fljótlega og koma hingað úr norðri, „Þórdísarbyggð“ , en þar hafa 15 frístundahús nú þegar pantað tengingu að sögn félagsins (Stangarholts byggð). Hægt er að nálgast upplýsingar á heimasíðunni www.ljosborg.net og þar er einnig hægt að nálgast umsóknarblað. Grunngjald er ca. 250.000.- kr + tilfallandi kostnaður. Endanlegt gjald ræðst af fjölda tenginga á svæðinu, en aðeins lögbýli og starfandi félög eru gjaldgeng fyrir lagningarstyrkjum. Einn einstaklingur er búinn að panta í Jarðlangsstaðalandi þegar ég ræddi við fulltrúa LJÓSBORGAR.
  Ég hvet því félagsmenn að kynna sér upplýsingar sem er að finna á heimasíðunni www.ljosborg.net.

Fyrir hönd stjórnar

Lárus Atlason Formaður.

Nokkrar umræður urðu um skýrslu stjórnar: Lagt var til við nýja stjórn að þrengja hóp þeirra sem fengju aðgang að fésbók síðu félagsins, þ.e. fjarlægja þá sem ekki eru eigendur á svæðinu. Þá kom fram kvörtun vegna seina gangs pípara sem tengir vatnsveitu að sumarbústöðum.

Skýrsla stjórnar samþykkt samhljóða.

2. Reikningar félagsins og reikningar Vatnsveitu lesin upp.

Gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins og vatnsveitu.

Innkomin gr. Félagsgjöld  2020                         522.000

Gr. félagsgj. v 2019                                                    6.000

Inkomnir drv .                                                             1.110

Vextir af reikningi Landsb.                                      2.113

                                                                               531.223

Gr v/ Internet                                                      – 5.980

Póstburðargjöld.                                                   -3.900                                              

Þjónustugj banki, uppfærsla innh.                   -41.265

Vinna við Drenskurð í Tannalækjarhólum         -30.000

Fjármagnstekjuskattur                                            –   465

 Samtals                                                                Kr:  81.610

 Rekstrarafgangur                                               Kr:  + 449.613

Inneign á bók 31.des 203266.384                    Kr:   3.266.384

Fram kom hjá fundarmanni að hann telji ekki rétt að sumarhúsafélagið haldi áfram að safna fé félagsmanna inná bók þegar lítið þyrfti að framkvæma.

Þá var skorað á stjórn félagsins endurskoða fyrri samþykktir um að greiða ekki út til eigenda vatnsveitunnar það sem greitt hefði verið umfram vegna stofnkostnaðar við vatnsveituna. Fram kom hjá stjórnarmönnum að þeir telja vinnu við vatnsveitu ekki vera lokið þar sem m.a. þyrfti að setja dælu á lögnina til að ná upp meiri þrýstingi á vatnsveituna. Þá þarf að fylla ofan á lögnina yfir Tannalækjarhólinn til að reyna að koma í veg fyrir frost i lögn.  Lagt til við stjórn að kalla til fundar með þeim sem voru í forsvari fyrir vatnsveituna á sínum tíma og gera tilraun til sáttar um þetta mál.

Reikningar félagsins og Vatnsveitu bornir upp til samþykktar og samþykkt en einn á móti.

3. Kosning formanns.

Lárus Atlason gefur áfram kost á sér , engin býður sig fram á móti honum og samþykkt samhljóða.

4. Kosning stjórnar.

Ágústa Guðmundsdóttir og Skúli Guðjónsson víkja úr stjórninni að eigin ósk og var þeim þökkuð góð störf fyrir félagið. Í stað þeirra eru tilnefndir í stjórn Fjóla Svavarsdóttir og Jón Elvar Guðmundsson fyrir í stjórn eru Arinbjörn Friðriksson og Samúel Guðmundsson sem gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Engir mótframbjóðendur komu fram. Samþykkt samhljóða.

5. Kosning varamanna.

Harald B. Alfreðsson og Guðmundur Björnsson gefa kost á sér. Samþykkt samhljóða.

6. Kosning skoðunarmanna ársreikninga.

Ellen Ingvadóttir og Sigfríður Sigurðardóttir gefa ekki kost á sér áfram. Lagt til að Margrét Andrésdóttir og Helga Georgsdóttir verði kjörnar í staðinn. Samþykkt samhljóða.

7. Rekstrar-og framkvæmdaáætlun næsta árs.

Farið var yfir stöðu á vinnu við uppsetningu eftirlitsmyndavéla en von er á að fyrsta vél verði setti upp innan skamms við sorpgáma. Lagt er til að haldið verði áfram við að undirbúa uppsetningu á eftirlitsmyndavélum

Samþykkt samhljóða

8. Árgjald félagsins.

Tillaga um stjórnar um óbreytt árgjald samþykkt en einn á móti

9. Önnur mál.

 • Jarðlangstaðir ehf eru að fara að leggja veg um land sitt og hafa af þeim sökum fengið námaleyfi. – Möguleiki getur verið fyrir félagsmenn að fá aðgengi að efni í námunni reynist efni vera umfram þörf
 • Skorað á stjórn félagsins að beita sér fyrir úrbótum á veginum og reyna að fá bundið slitlag á veginn – Lárus formaður sagði frá því sem stjórnin er að vinna í  þessu máli

Fleira ekki gert og fundi slitið kl: 12.30

Samúel Guðmundsson ritaði fundargerð.


 [LA1]