Fundargerð Aðalfundar 2016

Aðalfundur  Félags sumarhúsaeigenda við Langá.

 1. júní 2016 í Langárbyrgi, veiðihúsinu við Langá.

Formaður setti fund kl: 10.00  og bauð fundarmenn velkomna og gerði að tillögu sinni að Samúel Guðmundson yrði fundarstjóri og Ágústa Guðmundsdóttir ritari. Sem var samþykkt.

Til fundarins var löglega boðað, með tölvupósti, á Facebook, með auglýsingaspjöldum rétt hjá ruslagámum og við afleggjara  við Tannalæk  og einnig á heimasíðu félagsins  jard.is

Mættir voru á fundinn 23 aðilar sem eru skráðir lóðareigendur og skráðu sig í  gerðarbók,  einnig voru nokkrir aðrir aðilar  Fundarstjóri  kannaði lögmæti fundarins sem hann sagði að væri ekki lögmætur, en  í samræmi við ákvörðun á  síðustu tveimur aðalfundum lagði hann til að við héldum áfram með fundinn þrátt fyrir það, enda engin stórmál sem lægju fyrir fundi. Þetta var samþykkt samróma

Þá las Samúel upp dagskrá fundarins.

Því næst sagði hann að lesa ætti upp fundargerð síðasta aðalfundar, en þar sem hún hafi legið frammi á heimasíðu félagsins léti hann það duga . Engar athugasemdir voru um fundargerðina og hún samþykkt samhljóða.

 1. Skýrsla stjórnar. Formaður Lárus Atlason les

Stjórnin hefur haldið einn stjórnarfund frá síðasta aðalfundi auk þess að hittast óformlega og ræða málin símleiðis.

Vatnsveita.  Einn hefur bæst við í vatnsveituna frá síðasta aðalfundi.

Ágreiningur um lóðamörk við Mið-Árás. Eins og fram hefur komið á tveim síðustu ársfundum komu upp ágreiningur um lóðamörk við Mið-Árás sem stjórnin var beðin að hlutast til um. Á síðasta ársfundi mætti til fundar byggingarfulltrúi Borgarbyggðar Lúlú Monk og gerði fundarmönnum grein fyrir áætlun sinni til lagfæringar á skekkjum á lóðamörkum sem varð til þegar fulltrúi sveitarfélagsins var að færa saman ljósmynd af svæðinu og landakort. Lúlú hugðist klára það verk fyrir lok september mánaðar á síðasta ári, en vegna ýmissa anna á skrifstofu byggingarfulltrúa gekk sú áætlun ekki eftir. Það skal tekið fram að undirritaður hefur haft samband við byggingarfulltrúan a.m.k. einu sinni í mánuði frá síðasta aðalfundi og það eina sem gerst hefur í málinu var á 33. Fundi í umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd  sem haldinn var í fundarsal í ráðhúsinu að Borgarbraut 14 í Borgarnesi, þriðjudaginn 10. maí síðastliðin, en þar var eftirfarandi  annað mál á dagskrá  -„ Jarðlangsstaðir – deiliskipulag,  Minni háttar breyting á deiliskipulagi“ eftirfarandi bókað:  „Í breytingu á deiliskipulagi sem samþykkt var í sveitarstjórn 15. október 2008 hafa lóðarmörk við Lágskóga, Stóra-Árás og Mið-Árás færst til. Með breytingu þessari verður þetta lagfært í samvinnu við lóðarhafa og landeigendur. Málið verður grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum og landeigendum á umræddu svæði“.  Síðan þá hef ég haft samband við byggingarfulltrúann í fjórgang og beðið um að fá í hendur lagfæringarnar svo ég gæti kynnt þar fyrir félagsmönnum og rætt á þessum aðalfundi. Síðast talaði ég við byggingarfulltrúann 1. júní s.l. og þá var mér lofað að ég fengi þessa kynningu í hendur fyrir þennan aðalfund.

·        Ný reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.  Þann 16. apríl s.l. var sett ný reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðurleldum. Heiti reglugerðarinnar er 325/2016 Í þessari reglugerð koma fram nokkur ný atriði sem snerta okkur hér í  landi Jarðlangsstaða  t.d.  hvað varðar árlegan varðeld sem haldinn hefur verið við ármót Langár og Tannalækjar mörg undanfarin ár. Nú er svo komið að með tilkomu þessarar reglugerðar að enn flóknara er að halda varðeld sem er meira en 1 rúmmetri  að stærð. Það er mitt álit að brennan sé „Barn síns tíma“ og því full ástæða til að nota þetta tækifæri til að endurskoða afstöðu félagsmanna til brennunnar.

 • Faceb0ok síða Félags Sumarhúsaeigenda við Langá. Vakin er athygli félagsmanna á því að við höfum opnað ‚Fésbókarsíðu‘ um málefni félagsins. Nú eru komnir 32 aðilar inn, en ALLIR félagsmenn geta beðið um vinabeiðni inn á Fácebook og verður þeim þá bætt við á síðuna.

 

 • Heimasíða félagsins. Settar hafa verið inn á heimasíðuna upplýsingar sem snerta félagsmenn, t.d. fundargerð síðasta  aðalfundar, opnunartíma gámastöðvarinnar í Borgarnesi og svo framvegis. Við höfum ekki enn sem komið er komið upp aðgangsstýringu fyrir félagsmenn en það er áformað um leið og við setjum inn upplýsingar um félaga síma og netföng. Allar góðar tillögur eru að sjálfsögðu vel þegnar!

 

 • Gámar. Að margefnu tilefni eru notendur sorpgámanna minntir á að aðeins má losa þar almennt heimilissorp. Allur annar úrgangur á að fara með á sorpstöðina við Sólbakka í Borgarnesi. Vísað er á heimasíðuna varðandi opnunartíma. Þið hafið væntanlega öll tekið eftir því að báðir gámarnir sem staðsettir hafa verið á Snæfellsnesvegi (Nr.54) rétt utan við Borgarnes hafa báðir verið fjarlægðir, að því mér er tjáð m.a. vegna þess hvað í þá var látið annað en heimilissorp.

 

 • Hreinsun rotþróa. Fyrir liggur að næsta rótþróahreynsun verður framkvæmd sumarið 2017.   Þegar nánari upplýsingar liggja fyrir um dagsetningar verður þeim komið fyrir á heimsíðunni okkar.

 

 • Viðhald vega. Búið er að hefla veginn okkar (Nr. 536) einu sinni þetta vorið þá er fyrirhugað að rykbinda veginn frá Gámaplani og upp að Jarðlangsstöðum en það verður vart gert fyrr en eftir nokkrar vikur að sögn verkstjóra Vegagerðarinnar, þar sem þeir fóru seint af stað þetta vorið. Þá ynnti ég hann ENGAR LAGFÆRINGAR væru fyrirhugaðar, “ aðeins tjaslað upp á skemmdir ef einhverjar væru” !.

 

 • Landsamband sumarhúsaeigenda. Eins og fram kom á síðasta aðalfundi var það tillaga formanns þá að félagið segði sig úr Landsambandi sumarhúsaeigenda þar sem það er mitt mat að lítið fáist fyrir þáttökuna, en hún kostar hvern félagsmann 2.000 kr á ári. Sú tillaga var felld en jafnframt lagt til að beðið yrði í 1 ár með að segja okkur úr Landsambandinu, en jafnframt lagt til að formaður fylgdist með gangi mála hjá sambandinu. Ég sat nýverið Aðalfund hjá Landsambandinu og eftir hann er það áfram staðföst sannfæring mín að við eigum ekki samleið með Landsambandinu enda það fyrst og fremst málsvari fyrir Sumarhúsaeigendur á leigulandi en ekki jarðeigendur eins og félaga í Félagi sumarhúsaeigenda við Langá eru ALLIR. Ég geri það því AFTUR að tillögu minni að við segjum okkur úr Landsambandinu. Þeir félagar sem áfram vilja vera í landsambandinu er það að sjálfsögðu frjálst, enda félagafrelsi hér á landi. Ég tel að félagsgjöldum okkar sé betur varið í aðra hluti en að borga tæpar tvöhundruð þúsund krónur á ári til Landambandsins.
 • Fjarskipti. Samkvæmt upplýsingum frá fulltrúa NOVA á svæðinu var erindi sent byggingarfulltrúa Borgarbyggðar eftir síðasta aðalfund en ekkert svar hefur borist til þeirra enn sem komið er. Erindið var ítrekað á þessu ári án þess að svar bærist frá Borgarbyggð. Hugmyndir NOVA voru að erindið færi í grenndarkynningu með grenndarkynningunni um lagfæringu á lóðarmörkum.

 

 • Varnir við gróðureldum. Eins og áður hefur komið fram er það tillaga til allra félagsmanna að þeir komi sér upp vatnsslöngu sem nær a.m.k. hringin í kringum sitt frístundarhús og einnig má benda mönnum á að fáanlegar eru sérstakar „Nornaklöppur“ sem notaðar eru m.a. hjá slökkviliðum við að slá á og slökkva í sinueldum. Þær er hægt að kaupa hjá Ólafi Gíslasyni & co. Eldvarnarmiðstöðinni, Sundaborg 7 Reykjavík.

 

 • Gönguleiðir á svæðinu. Hægt er að ganga meðfram Langá á veiðivegi allt frá ármótum Langár og Tannalækjar til norðurs allt að Sólvangi, veiðihúsi Ingvar Hrafns Jónssonar. Ætlunin er að skanna kort með gönguleiðum og setja inn á heimasíðuna is

 

 • Rekstur sameiginlegra svæða. Landið sem félagið fékk afhent frá Landeigendum Jarðalangsstaða á síðasta ári hefur enn ekki verið sléttað en beðið er tilboðs í verkið og mun stjórnin vinna það mál áfram. (LA búinn að tala við Halla á Háhól og ætlar hann að koma fljótlega og skoða og koma með tillögur og væntanlegan kostnað við plæginguna/sléttuni

 

 • Heimabanki og netföng. Sendar eru út kröfur í heimabanka fyrir félagsgjöldum og ekki sendur út gíróseðill fyrir þeim. En þeir sem eru fæddir fyrir árið 1940 fengu seðla í pósti því það eru kannski færri á þeim aldri sem eru með heimabanka. Varðandi auglýsingar og önnur samskipti þá væri mjög gott að fá netfang hjá öllum félagsmönnum sem eru með tölvu svo hægt að senda út það sem þarf, við erum komin með mörg netföng, en best væri að hafa hjá öllum sem eru með tölvu, en heimasíðan jard.is og Facebook hjálpa mikið til.

 

Staða á greiðslum. Innheimt fyrir árið 2015 Kr: 744.954    Kostnaður Kr: 294.709.  Rekstrarafgangur Kr:    450.245   en nánari upplýsingar koma fram í skýrslu gjaldkera.

 

Fyrir hönd stjórnar

Lárus Atlason formaður

 

Skýrsla stjórnar borin upp til samþykktar, og samþykkt samhljóða.

 

Lúlú  Monk mætti óvænt á fundinn  og  tilkynnti fundarmönnum að það yrði farið í deiliskipulagsvinnuna í næstu viku varðandi Mið-Árás og Stóra-Árás vegna hnita sem færst hafa til á skipulagi,   síðan fer þetta í grenndarkynningu

 

 1. Reikningar félagsins.

Gjaldkeri las upp  reikninga félagsins

Reikningur fyrir árið 2015

Innkomnar gr. Félagsgjöld   v/2014 og 2015           728.000

Inkomnir drv . .2014 og 2015                                       3.626

Vextir af reikningi Landsb.                                           13.328

Samtals      744.954.

 

Gr. Til Landssambands Sumarh.eig                          180.000

Gr v/ fundar Edduveröld                                           16.500

Póstur, frímerki Heimasíða                                        45.079

Þjónustugjöld banki                                                    11.975

Olía, tryggingar brennuleyfi Hljóðfæraleikur           38.490

Fjármagnstekjuskattur                                                   2.665

Samtals      Kr:     294.709

Rekstrarafgangur                                              Kr:     450.245

Inneign á bók 31.des 2015                                    1.254.358

______________________________________________________________

Vatnsveita. Eitt heimtaugargjald greitt á árinu            Kr:   403.874

Vextir –                                                                  Kr:   138.958

Fjármagnstekjusakattur                                     Kr:   –27.791

Inneign  á bók 31. des 2015.   Kr: 5.075.449

Reikningar félagsins bornir upp og samþykktir samhljóða.

Reikningur Vatnsveitu borinn upp og samþykktur samhljóða.

 

 1. Kosning formanns. Lárus Johnsen Atlason gefur kost á sér áfram. Enginn önnur tillaga. Samþykkt samhljóða.
 2. Kosning stjórnar: Samúel Guðmundsson, Ágústa Guðmundsdóttir, og Skúli Guðjónsson gefa öll kost á sér áfram. En  Þorkell Guðmundsson víkur sæti að eigin ósk . Þökkum við honum gott samstarf og óskum honum velfarnaðar. Lagt er til að Arinbjörn Friðriksson fráfarandi skoðunarmaður reikninga verði kjörinn í  hans stað.   Samþykkt  samhljóða.
 3. Kosning meðstjórnenda.. Þorsteinn Ingi Kragh og Guðmundur Björnsson eru samþykktir samhljóða.
 4. Kjörnir skoðunarmenn reikninga Í stað Arinbjörns  Friðrikssonar er lagt til að Ellen Ingvadóttir verði kjörin í hans stað. Sigfríður Sigurðardóttir verður áfram. Samþykkt samhljóða.
 5. Rekstrar og framkvæmdaáætlun næsta árs. Lárus gerir grein fyrir því að aðeins liggi fyrir að plæja/slétta sameiginlegt leiksvæði fyrir börn, eins og fram kom á síðasta aðalfundi og eigum við von á tilboði í verkið á næstunni.

Rekstrar og framkvæmdaáætlun samþykkt samhljóða.

 1. Árgjald félagsins. Fundarmenn eru samþykkir því að segja sig úr Landssambandi sumarhúsaeigenda, og lækkar þá félagsgjald sem gjaldinu nemur eða úr 8.000- í  6.000,- Rætt um að setja spurningu inn á Facebook og kanna hug fólks með Landssambandsgjald. En ef fólk vill vera í því félagi án félagsaðildar við félag okkar þá kostar kr 4.000 á ári að vera félagsmaður.

 

 1. Önnur mál

Rotþró. Reiknað er með að rotþrær verði hreinsaðar árið 2017. Talað var um það í upphafi að hreinsað yrði á 2-3 ára fresti.

Það verður ekki Brenna.  Auglýsa þarf  á  Facebook, á heimasíðunni og setja skilti rétt við ruslagám og við afleggjara við Tannalækinn að ekki verði Brenna um verslunarmannahelgi eins og verið hefur í allavega 35 ár.  Einnig að merkja við gamla brennusvæðið að ekki megi henda trjáúrgangi þar því ekki verði brenna.  Samkvæmt nýjum eldvarnarlögum eru reglur varðandi brennu svo þröngar, það má ekki hafa  brennu stærri en 1  rúmmetir og eftir 4 klst þarf að vera búið að slökkva eld og fjarlægja leifar af brennunni og ösku. Svo ákveðið var að hafa ekki brennu.   Erna Nielsen sem er með hús í Tannalækjarhólum hefur oft orðið vör við miklar eldglæringar sem maður veit að er mikil hætta af. Erna er mjög þakklát fyrir að ekki verði brenna.

Gámur fyrir timbur og tré.  Í framhaldi af brennumálunum  ræddi Erna um  hvort það væri ekki kjörið að fá þá gám eina helgi upp á okkar svæði fyrir timbur og tré. Málið verður athugað, og kostnaður við gáminn.

Rykbinda þarf veginn áður en veiðitímabil hefst !

Fundarstaður. Við þökkum kærlega fyrir að fá að halda aðalfund  félagsins í þessu frábæra veiðihúsi,  og vonumst við til að fá leyfi hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur að halda aftur fund í húsinu á sama tíma að ári, en það félag hefur húsið á leigu.

Straumlaust. Auglýst var um þessa fundarhelgi að straumlaust yrði á svæðinu þriðjudag 7. júní  2016  frá miðnætti til 7 um morguninn.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl: 11.10

 

Ágústa Guðmundsdóttir

Fundarritari.